Hampiðjan – níu mánaða samandreginn árshlutareikningur samstæðu Hampiðjunnar 2024

Source: GlobeNewswire
Hampiðjan – níu mánaða samandreginn árshlutareikningur samstæðu Hampiðjunnar 2024

Lykilstærðir 

Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.

  • Rekstrartekjur ársfjórðungsins voru 74,7 m€ (80,9 m€)
  • EBITDA af reglulegri starfsemi á ársfjórðungnum var 8,6 m€ (9,2 m€)
  • Hagnaður ársfjórðungsins nam 1,1 m€ (3,5 m€.)
  • Rekstrartekjur á fyrstu 9 mánuðum voru 239,9 m€ (247,1 m€).
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 28,7 m€ (30,6 m€).
  • Hagnaður fyrstu 9 mánuði ársins nemur 9,3 m€ (11,4 m€.)
  • Heildareignir voru 500,2 m€ (490,0 m€ í lok 2023).
  • Vaxtaberandi skuldir voru 174,3 m€ (168,0 m€ í lok 2023).
  • Handbært fé var 44,4 m€ (53,0 m€ í lok 2023).
  • Eiginfjárhlutfall var 53,7% (55,2% í lok 2023).

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 239,9 m€ og lækkuðu um 3,0% frá fyrstu níu mánuðum fyrra árs.  

EBITDA félagsins lækkaði um 6% á milli tímabila eða úr 30,6 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 í 28,7 m€ á fyrstu níu mánuðum þessa árs.

Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld á fyrstu níu mánuðum ársins nema 6,8 m€ til gjalda samanborið við 3,8 m€ til gjalda fyrir sama tímabil í fyrra. Megin skýring á þessari breytingu er að gengishagnaður fyrstu níu mánaða ársins nemur um 0,6 m€ samanborið við 3,8 m€ gengishagnað á fyrstu níu mánuðum ársins 2023. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2023 styrktist íslenska krónan um 3% gagnvart evru. Félagið var með umtalsverða fjármuni í íslenskum krónum á tímabilinu sem var megin ástæðan í gengishagnaði síðasta árs. Gengishagnaðurinn gekk að hluta til baka á síðasta ársfjórðungi 2023 og endaði í 2,4 m€ í lok ársins 2023.

Hagnaður tímabilsins var 9,3 m€ en var 11,4 m€ fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023.

Efnahagur

Heildareignir voru 500,2 m€ og hafa hækkað úr 490,0 m€ í árslok 2023.
Eigið fé nam 268,4 m€, en af þeirri upphæð eru 12,8 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 53,7% af heildareignum samstæðunnar en var 55,2% í árslok 2023.

Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 174,3 m€ samanborið við 168,0 m€ í ársbyrjun.

Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.

Í dag verður haldinn fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

„Eftir góða sölu á fyrsta ársfjórðungi kom fram sölutregða á öðrum ársfjórðungi sem hélt áfram inn í sumarið og til loka þriðja ársfjórðungs. Salan var reyndar ágæt í Kanada, á Íslandi og á Írlandi miðað við sama fjórðung í fyrra og í Færeyjum náðist að vinna upp það sem tapaðist í 4 vikna verkfallinu þar í sumarbyrjun og gott betur en það. Hins vegar dróst salan saman á Grænlandi og Skotlandi en mestur samdráttur varð hjá fyrirtækjunum í Noregi. Þar varð salan minni bæði í veiðarfærum og veiðarfæraefni ásamt minni sölu til fiskeldis.

Í heildina tekið varð sala á þriðja ársfjórðungi 7,7% minni en á sama fjórðungi 2023 en sala fyrstu níu mánuði þessa árs er 3,0% minni en árið á undan. EBITDA fjórðungsins var rúmar 8,6 m€ á móti 9,2 m€ í fyrra eða 11,5% á móti 11,4% árið áður. Á fyrstu níu mánuðum 2024 er EBITDA rúmar 28,7 m€ á móti tæpum 30,6 m€ í fyrra og hlutfallið 12,0% á móti 12,4% á sama tímabili í fyrra.

Samanburður á fjármagnskostnaði þriðja ársfjórðungs í ár og í fyrra kemur sérkennilega út vegna gengismismunar sem skapaðist á því tímabili 2023 og tengist hlutafjárútboðinu sem var í júní í fyrra.

Andvirði hlutafjáraukningarinnar var sett inn á reikning í íslenskum krónum sem hefur gefið háa vexti. Stór hluti þeirra fjármuna var notaður til að greiða niður lán Mørenot fljótlega eftir útboðið og aftur síðan undir lok ársins þegar gengið var frá samningum um framtíðarfjármögnun. Þegar hlutafjárútboðinu lauk var gengi ISK gagnvart evru 149,5. Þegar leið fram á haustið styrktist íslenska krónan um 3% á þriðja ársfjórðungi og var í lok september 144,9 ISK gagnvart evru. Þetta er meginskýring á þeim mikla gengishagnaði sem varð á þriðja ársfjórðungi 2023. Gengishagnaður ársfjórðungsins nam um 2,0 m€ og dró niður fjármagnskostnað fjórðungsins sem því nam. Þegar kom að áramótunum veiktist íslenska krónan aftur og endaði í 150,5 ISK gagnvart evru eða nálægt því sem var þegar hlutabréfaútboðið fór fram. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs er gengistap að fjárhæð tæpum 0,6 m€. Fjármagnskostnaðurinn kemur því inn að fullu sem 3,431 m€ í stað þess að vera einungis 0,171 m€ á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Þessi gengismismunur leiðir til þess að hagnaður á þriðja ársfjórðungi reiknast sem 1,1 m€ en var á sama tímabili í fyrra 3,5 m€.

Gengishagnaðurinn gekk að hluta til baka á síðasta ársfjórðungi 2023 og endaði í 2,4 m€ í lok ársins 2023.

Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld á fyrstu níu mánuðum þessa árs nema 6,8 m€ til gjalda samanborið við 3,8 m€ til gjalda fyrir sama tímabil í fyrra. Megin skýring á þessari breytingu er sú sama en nú yfir fyrstu níu mánuði ársins nemur gengishagnaður um 0,6 m€ samanborið við 3,8 m€ gengishagnað á fyrstu níu mánuðum ársins 2023.

Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins er nú tæpar 9,3 m€ samanborið við tæpar 11,4 m€ á sama tímabili 2023.

Ástæður fyrir sölutregðunni, sem einangrast við N-Atlantshaf, eru mismunandi eftir landsvæðum.

Á Grænlandi var síðasta rekstrarár grænlenskra útgerða erfitt vegna hækkandi kostnaðar og lægri verða á afurðum, meðal annars vegna aukins framboðs frá Rússlandi á lægri verðum. Til að bregðast við þessu hafa útgerðir þar dregið úr og endursamið um verð á aðföngum og hefur það haft áhrif á söluna í Grænlandi.

Á Íslandi munar mest um að ekkert veiddist af loðnu á síðustu vertíð og því hafa loðnunætur ekki verið notaðar og eðlilega engar tekjur af viðhaldi þeirra í ársbyrjun.

Á Írlandi kemur tvennt til, áhrif Brexit á uppsjávarflotann eru nú komin fram að mestu og einnig var fjöldi minni skipa, sem hafa veitt á svæðinu milli Írlands og Wales, sett í úreldingu.

Mesti munurinn er þó í Noregi því mælingar á þorskstofninum í Barentshafi, sem er sameiginlegur veiðistofn Norðmanna og Rússa, sýndu að þörf væri á meiri niðurskurði kvóta og í kjölfar 20% kvótaminnkunar 2024 hefur verið ákveðið að minnka kvótann um 25% á næsta ári. Reyndar lögðu fiskifræðingar til 31% niðurskurð en stjórnvöld vildu ekki ganga svo langt og ákváðu 25%. Þessi fyrirhugaða kvótaminnkun, í kjölfar mikillar minnkunar á þessu ári, hefur haft töluverð áhrif á kaup á veiðarfærum og veiðarfæraefni undanfarna mánuði. Eftir kvótaniðurskurð næsta árs standa vonir til að meiri veiði verði leyfð árin eftir því þeir árgangar sem eru að vaxa upp virðast vera sterkir.

Í fiskeldisgeiranum hefur aukin samkeppni á norska markaðnum haft áhrif á sölu til norskra fiskeldisfyrirtækja en mest af sölusamdrætti Mørenot Aquaculture í Noregi má þó rekja til dótturfyrirtækis þess á Spáni. Það hefur orðið af töluverðri umsaminni sölu vegna stjórnmálaástandsins í heiminum m.a. vegna aðkomu rússneskra fjárfesta að fiskeldisverkefnum í Marokkó og við Óman sem hafa sætt viðskiptahindrunum og einnig vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafsins sem frestaði stóru verkefni þar.

Tekið hefur tíma að ná sölum í fiskeldisbúnaði í stað þeirra verkefna sem ekki hafa gengið eftir og hafa nokkrir samningar verið undirskrifaðir undanfarnar vikur og nemur samanlagt söluvirði þeirra um tæpum 6 m€. Einnig eru samningar um nokkur fleiri verkefni, að samanlagðri upphæð 32,5 m€, á lokastigi samningaviðræðna og munu vera í vinnslu næstu tvö árin. Ólíkt sama tíma í fyrra, þegar vöntun var á framleiðslupöntunum fiskeldiskvía hjá Mørenot Aquaculture á netaverkstæðunum í Litháen og Póllandi, þá er afkastagetan núna vel bókuð fram á vor.

Á öðrum landsvæðum en þeim sem hafa verið talin upp hefur sala haldist svipuð eða farið vaxandi.

Unnið er að fullu að uppbyggingu fiskeldisþjónustustöðvar Vonin Scotland á eynni Skye vestur af Skotlandi og miðar verkefninu vel og stöðin ætti að vera starfhæf í lok næsta sumars.

Nýja netaverkstæðið í Skagen í Danmörku var vígt í byrjun september og er það mikil framför því netaverkstæðið er 4.800 m2 og búið besta tækjabúnaði sem völ er á fyrir viðgerðir og viðhald á flottrollum. Skagen er nú aðal útgerðarhöfn danskra og sænskra uppsjávarskipa og þar koma einnig inn mörg önnur uppsjávarskip enda stór fiskvinnslufyrirtæki staðsett í Skagen ásamt skipasmíðastöð sem smíðað hefur flest uppsjárvarskip fyrir N-Atlantshafið undanfarin ár. Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að gengið var frá sölu á eldra netaverkstæðinu í Skagen fyrir um tveim vikum síðan en sala á því var stór hluti af fjármögnun byggingar nýja verkstæðisins.

Í byrjun september var formlega tekið við rekstri FiiZK Protection AS en samningar um kaup á fyrirtækinu voru undirskrifaðir í ágúst. Fyrirtækið, sem er staðsett við ströndina ekki langt frá Þrándheimi, framleiðir lúsapils sem eru notuð til að koma í veg fyrir að laxalús, eitraðir þörungar og marglyttur komist inn í fiskeldiskvíar. Velta fyrirtækisins var um 8,4 m€ í fyrra og EBITDA um 1,6 m€ og starfsmenn eru 24. Haustin hafa yfirleitt verið verkefnalítil því mest er um sölu á lúsapilsum á vormánuðum þegar sjór er að hlýna og nýjar eða yfirfarnar fiskeldiskvíar eru settar út. FiiZK Protection hefur aðstöðu til að gera við notuð lúsapils en yfirleitt ekki haft næg verkefni á haustin en Mørenot Aquaculture hefur hins vegar ekki komist yfir sín viðgerðarverkefni og hluta af þeim verkefnum hefur verið vísað til FiiZK og hjálpað til að tryggja fulla starfsemi þar í haust. Sjór við N-Noreg hefur verið hlýr og það hefur orðið til þess að mikið hefur verið af laxalús og marglyttu og það hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir lúsapilsum til að verjast þeim og því hefur einnig verið mikið að gera í framleiðslu á nýjum pilsum undanfarnar vikur. Starfsemin fer því vel af stað hjá þessu nýja fyrirtæki í samstæðunni.

Á þriðja ársfjórðungi var gengið frá sameiningu rekstrarvöruhluta Voot við Hampiðjan Ísland og í framhaldi á því sameiningu Morenot Ísland við Hampiðjan Ísland. Hagræðingin af þessum sameiningum mun skila sér að fullu eftir áramótin en á þeim tíma verður búið að sameina lagera og innkaup og leigusamningur Morenot Ísland rennur einnig út um áramótin.

Ákaft er unnið að áframhaldandi endurskipulagningu á starfsemi Mørenot félaganna í Noregi og dótturfyrirtækja þeirra og með aukinni áherslu á hagræðingu til að mæta sölusamdrættinum í Noregi. Reksturinn hefur verið einfaldaður samhliða því að skil á milli rekstrareininga hafa verið gerð skýrari.

Mikið verk er enn eftir óunnið og það mun taka 3-4 ár að fullklára verkið, eins og áður hefur komið fram, því endurskipuleggja þarf framleiðslueiningar innan félaganna, flytja þær til og sameina öðrum framleiðslueiningum Hampiðjunnar og færa til innkaup á efnum til veiðarfæragerðar frá utanaðkomandi birgjum til eigin framleiðslufyrirtækja.

Framtíðarskipulag á framleiðslu fiskeldiskvía er stór hluti af hagræðingaraðgerðunum en í dag fer framleiðslan fram á tveim stöðum í Litháen og að auki í Póllandi og á Spáni. Stefnt er að því að kynna aðgerðaáætlun sem snýr að þeim verkefnum fljótlega eftir áramótin.“

Fjárhagsdagatal

Ársuppgjör fyrir árið 2024 - 6. mars 2025

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.

Viðhengi