Company Announcements

Uppgjör Brims á þriðja ársfjórðungi 2024

Source: GlobeNewswire
Uppgjör Brims á þriðja ársfjórðungi 2024

Starfsemin á 3F2024

Afli bolfiskskipa félagsins var 14 þúsund tonn á þriðja ársfjórðungi en var 13 þúsund tonn árið áður. Mesta aflaaukning er í gullaxi þar sem afli eykst um rúm þúsund tonn á milli ára. Nýr frystitogari Þerney var tekinn í notkun á tímabilinu, jafnframt var gengið frá sölu á Örifirisey. Helga María stoppaði vegna viðhaldsverkefna á tímabilinu. Verð á ferskum landunnum bolfiskafurðum hafa haldist sterk á tímabilinu en sjófryst afurðaverð eru lægri samanborið við verð síðustu ára.

Fyrsta löndun makríls var ekki fyrr en 3. júlí og gekk vinnsla vel og fiskur í stærra lagi. Skip félagsins, Venus, Víkingur og Svanur, voru í veiðisamstarfi við tvö skip Eskju hf., þar sem öllum afla var dælt í eitt skip í einu sem tryggði ferskari fisk til vinnslu og færri siglingardaga.  Alls lönduðu skip Brims um 17 þúsund tonnum af makríl. Makrílveiðin reyndist lakari en vonir stóðu til og veiddu skip Brims 65% af aflamarki sínu.  Vonir standa til að stjórnvöld auki geymsluheimildir fyrir næsta ár.

Fyrsta löndun á norsk-íslensku síldinni var 4. september og var öllum þremur skipum félagsins beitt jafnt. Skipin tóku stutta túra og komu með minni afla úr hverri ferð sem tryggði ferskleika hráefnis og hátt hlutfall af fiski til manneldis. Síðasta löndun fór fram undir lok september og alls voru veidd um 8 þúsund tonn.

Helstu atriði úr fjárhagsuppgjöri 3F 2024

  • Vörusala var 110 m€ á fjórðungnum samanborið við 113 m€ á þriðja fjórðungi 2023
  • Hagnaður var 19 m€ á fjórðungnum samanborið við 25 m€ á þriðja fjórðungi 2023
  • EBITDA var 26 m€ og EBITDA hlutfall 23,7%
  • Eignir hafa hækkað um 44 m€ frá áramótum og voru 994 m€ í lok tímabilsins
  • Eigið fé þann 30. september 2024 var 467 m€ og eignfjárhlutfall 47,0%

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Það harðnar á dalnum þessi misserin í sjávarútvegi. Niðurskurður á verðmætum tegundum í bolfiski og bann við loðnuveiðum eru farnar að bíta, við veiðum minna af bolfisktegundum og tekjur dragast saman. Þá var makrílveiðin lakari en vonir stóðu til. Brim veiddi einungis 65% af aflaheimildum sínum á vertíðinni þetta árið en við vonumst til að geta nýtt eftirstöðvar heimildanna á næsta ári. Þá fór Brim ekki frekar en aðrir varhluta af kostnaðarhækkunum sem þýðir að kostnaður við rekstur félagsins jókst. Hagnaður minnkaði og afkoman af rekstri félagsins var verri á þriðja ársfjórðungnum en í fyrra.  Þessi niðurstaða er ekki viðunandi en við sem höfum reynslu af útgerð og glímunni við náttúruöflin vitum að það gengur á ýmsu og sveiflur eru bæði upp og niður.

Nú þegar vænta má veðrabrigða í stjórnmálum hér á landi í kjölfar kosninga er það von mín að ný stjórnvöld taki upp öflugt og gott samtal við okkur sem vinnum í íslenskum sjávarútvegi og í framhaldi verði stöðugleiki og aukinn fyrirsjáanleiki í nýtingu auðlinda í sjávarútvegi en þannig munu skapast meiri verðmæti fyrir samfélagið í heild sinni.“

Rekstur

Seldar vörur námu á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 284 m€ samanborið við 335 m€ árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 47 m€ eða 16,6% af rekstrartekjum, en var 79 m€ eða 23,5% árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjáreignatekjur námu 14,1 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 en voru 10,2 m€ á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir tekjuskatt á fyrstu níu mánuðum ársins nam 28,2 m€, samanborið við 63,9 m€ á fyrstu níu mánuðum árisns 2023. Tekjuskattur fyrir sama tímabil nam 3,7 m€, en var 9,8 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 24,5 m€ en var 54,1 m€ árið áður.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 994 m€ í lok 3F 2024. Þar af voru fastafjármunir 826 m€ og veltufjármunir 168 m€. Eigið fé nam í lok tímabilsins 468 m€ og var eiginfjárhlutfall 47,0%, en var 49,8% í lok árs 2023. Heildarskuldir félagsins voru 526 m€ í lok fjórðungsins og hækkuðu um 50 m€ frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 22 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins, en var 26 m€ á sama tíma árið 2023. Fjárfestingar-hreyfingar voru neikvæðar um 51 m€ og fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 18 m€. Handbært fé lækkaði því um 11 m€ og var 23 m€ í lok tímabilsins.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánuði árins 2024 (1 evra = 150,05 ísk) voru tekjur 42,6 ma. króna, EBITDA 7,1 ma. og hagnaður 3,7 ma. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2024 (1 evra = 150,7 ísk) voru eignir samtals 149,8 milljarðar króna, skuldir 79,3 milljarðar og eigið fé 70,5 milljarðar.

Hluthafar
Lokaverð hlutabréfa 30. september 2024 var 78,2 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 151 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 1.729.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 21. nóvember 2024. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards).

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Fjórði ársfjórðungur                27. febrúar 2025

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi